IS / EN / PL

Reiðhjólaslys

Síðustu ár hafa hjólreiðar stöðugt vaxið að vinsældum meðal landsmanna. Sífellt fleiri einstaklingar þjóta um götur borgarinnar á glænýjum hjólum klæddir litríkum hátæknifatnaði. Margir kjósa hjólreiðar sem skemmtilega leið til þess að hreyfa sig en aðrir nota hjólið sem sinn eina samgöngumáta. Hröð þróun er á keppnishlið hjólreiða og margar mótaraðir hafa verið stofnaðar upp á síðkastið.

Ýmsar ástæður eru fyrir þessum vinsældum. Nefna má endurbætta reiðhjólastíga borgarinnar, hátt eldsneytisverð, áhyggjur fólks af gróðurhúsaáhrifum og áhuga á heilsusamlegu líferni. Þrátt fyrir alla kosti reiðhjólamennsku hefur fjöldi slysa aukist töluvert á síðustu árum. Samkvæmt nýjustu tölum frá Samgöngustofu hefur skráðum slysum fjölgað um 218% frá 2002-2018. Frá árinu 2002 til 2014 voru engin banaslys en frá 2015 til 2018 hafa orðið þrjú dauðsföll. Í öllum tilvikum voru hjólreiðamennirnir hjálmlausir.

Miðað við þau gögn sem eru í boði er erfitt er að meta hvort aukin slysatíðni haldist í hendur við fjölgun reiðhjólafólks eða hvort slysatíðni sé að versna. Það þarf að taka margt í myndina eins og aukningu hraðskreiðra götuhjóla og rafmagnshjóla sem og mikla fjölgun í keppnishjólreiðum. Hópur af þrautþjálfuðu hjólreiðafólki tekur æfingu á götuhjólum og nær allt að 30 kílómetra meðalhraða á klukkustund, sem þýðir að hámarkshraði getur orðið allt að 50 eða 60 kílómetrar á klukkustund. Á þeim hraða aukast líkurnar á alvarlegum óhöppum töluvert.

En óháð slysatíðni hafa hjólreiðar jákvæð áhrif á umhverfið og líf fólks. Skv. rannsóknum er áhrifaþáttur hjólreiða á líkamshreysti stærri en marga grunaði. Þeir sem hjóla reglulega eru heilbrigðari, hamingjusamari og langlífari. Þar sem augljóst er að hjólreiðar eru ekkert stundarfyrirbrigði, er lykilatriði að hjólreiðamenn séu með öryggið í fyrirrúmi, séu rétt tryggðir og viti hvernig á að bregðast við ef slys ber að höndum.

[su_spacer size=”75″]

Algengustu reiðhjólaslys á Íslandi

Frá 2005 til 2010 gerði Ármann Jónsson læknir rannsókn á komum slasaðra eftir reiðhjólaslys á bráðamóttöku LSH. Helstu niðurstöður rannsóknar voru: 

  • Flestir slösuðust í frítíma eða rúmlega 72%. 
  • Flest slysin voru frá maí til september eða 71,3%
  • Meðalaldur slasaðra reyndist 23 ár og hlutfall ungra drengja áberandi hátt.
  • Hæst hlutfall áverka var á efri útlimum.
  • Stór hluti hjólreiðamanna hafði áverka á andliti, höfði og heila.
  • Yfirborðsáverkar á höfði og heilahristingur var algengasta greiningin meðal þeirra sem voru lagðir inn á spítala.

Reiðhjólaslys mynd 1: Hlutfall allra slasaðra eftir mánuðum á árunum 2001 – 2011 (LSH).

Reiðhjólaslys mynd 2: Meðalaldur slasaðra reyndist 23 ár og  hlutfall ungra drenga áberandi hátt. (LSH).

[su_spacer size=”75″]

Öryggisatriði sem gott er að hafa í huga

Sýnilegur klæðnaður, endurskinsmerki og ljósabúnaður eykur sýnileika reiðhjólafólks við misgóð skilyrði. Þegar fer að dimma er mikilvægt að hafa ljós, að framan og aftan. Þeir sem eru með framljós þurfa að gæta þess að beina ljósinu ekki of ofarlega svo það blindi aðra vegfarendur sem koma úr gagnstæðri átt. Bjöllur eru líka mikilvægur öryggisbúnaður en með því að láta aðra vegfarendur vita af þér, geturðu komið fyrirbyggt að fólk gangi í veg fyrir þig á gangstígum.

Meiðsli á efri útlimum eru algeng meðal reiðhjólafólks. Meðal annars er ástæða þess að margir reiðhjólamenn hjóla í festingum. Ef viðkomandi er ekki búinn að æfa sig í að smella fótum úr festingunni, er líklegt að hann missi jafnvægið og slasi sig á úlnliði þegar þarf að nauðhemla. 

Alvarlegustu hjólaslysin verða í mörgum tilvikum við þung höfuðhögg. Mikilvægt er því að gæta þess að öryggishjálmar séu þéttingsfastir við höfuðið. Góð regla er að ef þú kemur einum fingri fyrir á milli ólar og höku, er ólin ekki nægilega hert. Sumir segja að hjálmar megi ekki verða eldri 3-5 ára, en engar rannsóknir hafa þó sýnt fram á að öryggisgildi hjálma minnki með tímanum. Hins vegar er gott að vera meðvitaður um að ef hjálmurinn er orðinn mjög gamall og hefur ekki verið geymdur við réttar aðstæður, er öruggast að fá sér nýjan.

Reiðhjólamenn hafa sömu skyldur og bílstjórar í umferðinni.  Það er mikilvægt að gefa skýr merki um áform og stefnu sína í umferðinni. Alveg eins og bílstjórar hafa bremsuljós og stefnuljós, þá getur reiðhjólafólk gefið merki um hvert það stefnir eða að það sé að hægja á sér.

[su_spacer size=”75″]

Góð ráð þegar hjólað er í hópi

  • Ef þú ert að hjóla í fyrsta skipti í hópi er gott að byrja aftast. 
  • Engar hraðar hreyfingar án þess að athuga hvort þú hafir rými til þess. Gefðu alltaf merki ef þú ætlar að færa þig til í hópnum.
  • Ávallt skal hafa hendur á bremsum þegar þú ert í hópi, svo að þú getir minnkað hraðann í takt við hina eða sért tilbúinn að snöggbremsa. En að snöggbremsa í hópi á alltaf að vera lokaúrræði.
  • Horfðu fram á veginn. Taktu eftir því ef umhverfið fram undan er að breytast og vertu viðbúin(n) ef einstaklingur í hópnum gæti þurft að bremsa eða sveigja fram hjá hindrun.
  • Gæta þarf þess að nægilegt rými sé fyrir alla. Ef byrjendur eru í hópnum, er mikilvægt að hafa bilið enn breiðara en vanalega.

[su_spacer size=”75″]

Tryggingar fyrir reiðhjólafólk

Mikilvægasta trygging fyrir hinn almenna hjólreiðamann er frítímatrygging. Tryggingafélög bjóða upp á ýmiss konar fjölskyldutryggingar og í mörgum þeirra er slysatrygging í frítíma innifalin. Slík trygging greiðir bætur vegna slysa sem hjólreiðamenn verða fyrir í frístundum á götuhjóli. Sumar fjölskyldutryggingar ná einnig til almenningsþátttöku í æfingum og keppni í götuhjólreiðum en undanskilja afreksmenn í íþróttinni. Afreksmenn í hjólreiðum eða þeir sem stunda fjallahjólreiðar þurfa að bæta við sig sérstakri viðbótartryggingu. Þeir sem ferðast með hjólið sitt til útlanda þurfa að kynna sér hvort að trygging þeirra gildi þar.

Tryggingar geta bætt tjón á reiðhjólinu sjálfu en hámarksbætur eru mismunandi eftir stærðargráðu tryggingarinnar. Segjum að tryggingin bæti hjól allt að 150.000 krónum, en að þú eigir hjól sem er verðmætara, þá geturðu bætt við viðbótarreiðhjólatryggingu. Þar er tryggingarfjárhæðin valin sérstaklega þannig að hún dugi fyrir heildarverðmæti hjólsins.
Gott er að kynna sér skilmála mismunandi trygginga vel. Til dæmis er þjófnaður algengasta orsök tjóna á reiðhjólum. Þegar hjól eru tekin þar sem þau eru geymd innandyra þurfa að vera greinileg merki um innbrot til að bætur fáist greiddar. Ef reiðhjóli er stolið utandyra þarf hjólið að hafa verið tryggilega læst við fastan hlut til að bætur séu greiddar.

Ef þú slasast í umferðarslysi, til dæmis í árekstri við bíl, mótorhjól eða annað skráningarskylt ökutæki, getur þú átt rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu ökutækisins. Ábyrgðartrygging er lögboðin og ef slys verður vegna notkunar ökutækisins getur þú átt rétt á bótum úr tryggingunni samkvæmt skaðabótalögum. Ef þú ert launþegi, þá ert þú a.m.k. tryggð(ur) samkvæmt kjarasamningi í vinnu og á beinni leið á milli vinnustaðar og heimilis. Tökum sem dæmi að ef þú dettur á hjólinu á leiðinni í vinnuna og slasast þannig að þú verðir óvinnufær, tímabundið eða varanlega, getur þú átt rétt á bótum úr slysatryggingu launþega. Mikilvægt er því að kynna sér alla þá valmöguleika sem eru í boði og gæta þess að tryggingarnar henti þínum aðstæðum.

[su_spacer size=”75″]

Hvað skal gera eftir reiðhjólaslys?

Helstu atriði til að hafa í huga eftir reiðhjólaslys

  • Tryggja sönnun slyss, t.d. með aðkomu lögreglu og/eða ljósmyndum af vettvangi.
  • Leita sem fyrst til læknis, lýsa atvikum slyss og afleiðingum.
  • Tilkynna reiðhjólaslys til tryggingafélags. Ef um reiðhjólaslys á beinni leið á milli vinnustaðar og heimilis er að ræða þá þarf að tilkynna til Sjúkratrygginga Íslands.
  • Leita til lögmanns. Lögmaður heldur þá utan um þín mál og kemur því í réttan farveg, kallar eftir vottorði frá læknum, stendur vörð um fjárhagslega hagsmuni þína og ráðleggur þér hvernig best er að bera sig að.

Hvers vegna átt þú að leita þér faglegrar aðstoðar eftir reiðhjólaslys?

Slys eru alvarlegir atburðir sem geta gerbreytt aðstæðum í lífi okkar. Eftir slys geta lögin virst flókin ásamt óvissu um kostnað. Ofan á það geta erfiðleikarnir verið líkamlegir, sálrænir og félagslegir.

Það er t.d. mjög algengt að fólk:

  • Fari úr jafnvægi við slys
  • Reyni að útloka slysið og allt sem því tengist úr huga sér
  • Reki slysið til eigin mistaka og fyllist sektarkennd.

Af þessum sökum sjá margir ekki ástæðu til að leita réttar síns til skaða- eða slysabóta og missa því af þeim fjárhagslega stuðningi sem þeir eiga rétt á úr viðeigandi tryggingu. Slíkur stuðningur er dýrmætur á meðan gengið er í gegnum ferli sem reynir á bæði líkamlega og andlega hlið.

[su_spacer size=”75″]

Bætur eftir reiðhjólaslys

Hvernig bótum geta reiðhjólaeigendur átt von á eftir slys?

Þeir sem lenda í reiðhjólaslysi í frítíma eiga yfirleitt lakastan rétt og í sumum tilvikum jafnvel engan. Þá gilda oft einungis frítímaslysatryggingar sem eru í fjölskyldutryggingum tryggingafélaga. Þó geta slysatryggingar launþega gilt, ef hinn slasaði fellur undir kjarasamning sem gerir ráð fyrir bótum í frítíma. Ef viðkomandi er með almenna slysatryggingu, gildir hún um reiðhjólaaslys í frítíma sem og í vinnu. Þá er rétt að taka fram að verði reiðhjólaslys í frítíma, getur það verið bótaskylt úr ábyrgðartryggingu, ef einhver annar ber ábyrgð á slysinu, beint eða óbeint.

Ef reiðhjólaslys er skaðabótaskylt (einhver annar ber ábyrgð á slysinu) getur viðkomandi átt rétt á að fá greitt:

  • Útlagðan kostnað vegna slyssins, kostnað vegna heimsókna til lækna, kostnað vegna sjúkrabifreiða, lyfjakostnað, sjúkraþjálfunarkostnað ofl. Ásamt tjóni á fatnaði.
  • Verði fólk óvinnufært vegna slyss á það rétt á að fá tekjutapið greitt frá tryggingafélaginu eftir að launarétti lýkur hjá vinnuveitanda, þar til stöðugleikamarki er náð.
  • Þjáningarbætur.
  • Miskabætur.
  • Bætur fyrir varanlega örorku.
  • Lögfræðikostnað að stærstum hluta.

Bætur sem greiðast úr þessum tryggingum geta m.a. verið:

  • Sjúkrakostnaður upp að ákveðnu hámarki
  • Dagpeningar
  • Bætur fyrir læknisfræðilega örorku
  • Tjón á reiðhjóli

Hvernig er ferill bótamáls?

Gagnaöflun hefst um leið og tjónþoli leitar til lögmanns. Það er misjafnt eftir afleiðingum slyss hvenær tímabært er að meta varanlegar afleiðingar slyssins en það er þó í fyrsta lagi þegar ár er liðið frá slysi og öll nauðsynleg gögn liggja fyrir. Þegar mat á afleiðingum slyssins liggur fyrir fer bótauppgjör fram.

Hvað kostar að leita til lögfræðings?

Ef um reiðhjólaslys er að ræða í frítíma greiðir tryggingafélagið ekki kostnað vegna lögmannsaðstoðar. Sé slysið hins vegar skaðabótaskylt greiðir tryggingafélagið stærstan hluta lögfræðikostnaðarins fyrir þann sem slasast.

Í kjölfar reiðhjólaslyss er mikilvægt að sá sem fyrir slysinu varð ráðfæri sig sem fyrst við lögmann. Hjá Fulltingi er lögð áhersla á að tjónþoli tapi aldrei á að kynna sér rétt sinn. Fyrsta viðtal er ávallt tjónþola að kostnaðarlausu. Einnig mun tjónþoli ekki greiða neina þóknun ef engar bætur fást eftir að mat liggur fyrir.

[su_spacer size=”75″]

Forvarnir og viðhald

Viðhald á hjóli getur verið breytilegt eftir því hversu oft það er notað og við hvað skilyrði. Hjól sem eru notuð utan vega eða í rigningu þurfa meiri athygli en hjól sem eru eingöngu notuð við góðar aðstæður.

Fyrir hverja hjólaferð skal:

  • Athuga loftþrýsting í dekkjum.
  • Athuga hvort það séu brestir eða sprungur í stelli
  • Prófa bremsur og athuga ástand bremsuklossa.
  • Athuga hvort keðja sé hæfilega smurð. Ekki nota WD-40, sú vara er fyrst og fremst leysiefni og hreinsar burt þá smurningu sem er nú þegar á keðjunni. Efnið hefur lágmarks smurningareiginleika og hentar því ekki hjólakeðjum sem krefst þykkari og endingarbetri smurningu.

Regluleg skoðun (600-1.000km fresti)

  • Þrífa og þurrka hjólið
  • Hreinsa keðjuna með olíuhreinsi eins og WD-40 og smyrja svo aftur með keðjuolíu
  • Fara yfir gjarðir og athuga hvort allir teinar séu tryggilega festir.
  • Fara með viðeigandi verkfæri yfir allar skrúfur og bolta og gæta þess að allt sé vel hert og smurt.
  • Smyrja gírabúnað.
  • Athuga hvort kaplar séu byrjaðir að ryðga eða trosna.
  • Skipta um bremsuklossa eða herða þá.

Almennar forvarnir

  • Geymdu hjólið inni. Rigning og raki valda því að hjól eldast hraðar. Það eykur líkur á slysi.
  • Ef þú lendir í slysi eða kaupir notað hjól er mikilvægt að fara vel og vandlega yfir hjólið sjálf(ur) ef þekking er fyrir hendi. Að öðrum kosti skaltu fara með hjólið á viðgerðarstæði og láta fagmann yfirfara hjólið áður en það er tekið í notkun.
  • Ef það fara að heyrast skrýtin hljóð eða skrölt í hjólinu, er mikilvægt að finna orsökina strax.

Áhugaverðir hlekkir

Tryggingar

https://www.sjova.is/einstaklingar/heimili/reidhjolafolk/

https://vordur.is/einstaklingar/ferdir-og-fritimi/reidhjolatrygging/

Heilráð fyrir reiðhjólafólk

How To Unclip – Avoid A Clipless Pedal Disaster!

How To Cycle More Safely

How To Use Hand Signals And Calls To Avoid Road Hazards

How To Brake Like A Pro – Road Cycling

The Rights and Duties of Cyclists – Bicycle Safety

Fleiri greinar