IS / EN / PL

Úrskurður í máli nr. 15/2014 hjá Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum

Í málinu var deilt um atvik vinnuslyss sem M varð þegar hann var ásamt tveimur samstarfsmönnum sínum að taka niður vinnupall sem var utan á tanki sem stóð upp úr þaki verksmiðju. Þegar þeir höfðu lokið verki sínu gengu M og samstarfsmaður hans réttsælis í kringum tankinn á þakinu til að fullvissa sig um að þeir hefðu lokið verkinu svo sem til var ætlast. Skyndilega féll samstarfsmaður M við og byrjaði að renna niður þakið. M reyndi þá að grípa samstarfsmann sinn en féll þá sjálfur og féllu þeir báðir fram af þakinu. M féll fyrst á kranabómu og síðan niður á plan, alls 5,8 metra fall. Engar/ófullnægjandi fallvarnir voru til staðar við umræddan verkþátt. Í slysinu varð M fyrir slæmum meiðslum.

M leitaði til lögmanna Fulltingis eftir slysið og lýsti málavöxtum. Að mati lögmanna Fulltingis var strax ljóst að vinnuveitandi M hefði brugðist skyldum sínum skv. vinnuverndarlögum umrætt sinn enda hafi öryggisbúnaður (nauðsynlegar og öruggar fallvarnir) við framkvæmd verksins og verkstjórn verið verulega ábótavant. Vegna vanbúnaðarins ætti vinnuveitandinn að bera skaðabótaábyrgð á slysinu og M að fá tjón sitt bætt að fullu úr frjálsri ábyrgðartryggingu vinnuveitandans. Lögmenn Fulltingis hófu gagnaöflun í málinu og sendu í kjölfarið bréf til vátryggingafélags vinnuveitandans og fóru fram á fulla bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu vinnuveitandans hjá vátryggingafélaginu.

Vátryggingafélag vinnuveitandans viðurkenndi bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu vinnuveitandans að hluta. Vátryggingafélagið taldi rétt að láta M bera tjón sitt sjálfur að 1/3 hluta og vísaði til þess að það hafi alfarið verið ákvörðun M að vera ekki með fallvarnir í umrætt sinn. Einnig taldi vátryggingafélagið að skýrar reglur hefðu legið fyrir á vinnustaðnum um notkun öryggisbúnaðar og að ekki yrði annað séð en að M hafi sjálfviljugur ákveðið að virða starfsreglur vinnustaðarins að vettugi. Þá vísaði vátryggingafélagið sömuleiðis til þess að vegna menntunar M hefði hann átt að vita það að vinna við þessar aðstæður væru hættulegar. Taldi vátryggingafélagið að með ofangreindri háttsemi hefði M sýnt af sér stórkostlegt gáleysi umrætt sinn og því væri vátryggingafélaginu heimilt að skerða bætur hans að 1/3 hluta skv. 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993.*

Niðurstaða vátryggingafélagsins var skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og var þess krafist að nefndin viðurkenndi fulla bótaskyldu úr ábyrgðartryggingunni, þ.e. óskertar bætur til M.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar er í fyrsta lagi áréttað að af gögnum málsins, m.a. skýrslu Vinnueftirlits ríkisins, sé ljóst að M hafi unnið við mjög hættulegar aðstæður og því óforsvaranlegt að starfsmenn ynnu á þakinu án þess að öruggar fallvarnir væru til staðar. Taldi nefndin því ljóst að vinnuveitandinn hafi ekki gætt nægjanlega vel að öryggi M við vinnu hans á þakinu. Þá sagði nefndin að þó M hafi vegna menntunar sinnar mátt sjá að gæta þyrfti frekara öryggis vegna fallhættu, hafi ekki verið ljóst af gögnum málsins að á vettvangi hafi verið tiltækur slíkur búnaður af hálfu vinnuveitandans og var vinnuveitandinn látinn bera hallann af slíkum sönnunarskorti. Í ljósi framangreinds, sem og þess að skýrsla Vinnueftirlitsins sagði að líkur væru á að ísing hefði myndast skyndilega á þakinu, auk þess að rekja mætti fall M til viðbragða hans við falli samstarfsfélaga, taldi nefndin að ekki væri efni til að meta háttsemi M sem stórkostlegt gáleysi.

Nefndin snéri því niðurstöðu vátryggingafélagsins við og komst að þeirri niðurstöðu að M ætti rétt á óskertum bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu vinnuveitandans hjá vátryggingafélaginu.

Í málskoti Fulltingis til úrskurðarnefndarinnar var vísað til eftirfarandi laga/reglugerða og dóma:

Í athugasemdum vátryggingafélagsins til úrskurðarnefndarinnar var vísað til eftirfarandi laga/reglugerða og dóma:

* Meðábyrgð starfsmanns vegna líkamstjóns í vinnuslysum sbr.23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 124/2009 – Sú grein kveður á um það að ef starfsmaður verður fyrir skaðabótaskyldu líkamstjóni í starfi sínu skuli hann eiga rétt til fullra bóta fyrir tjón sitt nema hann hafi verið meðvaldur að tjóni sínu af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi. Lagagrein þessi tók gildi þann 31. desember 2009 og á því við um vinnuslys sem gerast eftir þann tíma.  Fyrir gildistíð 23. gr. a skaðabótalaga var mögulegt að skerða skaðabætur til starfsmanns úr hendi vinnuveitanda vegna eigin sakar starfsmannsins, þ.e.a.s. ef starfsmaðurinn sýndi af sér almennt gáleysi við slysið var hægt að skerða eða fella niður bætur hans vegna meðábyrgðar hans. Með 23. gr. a. skaðabótalaga þarf hins vegar að sýna fram á stórkostlegt gáleysi starfsmannsins eða ásetning. Þessi lagagrein hefur það í för með sér að það mun heyra til undantekninga að starfsmenn verði látnir bera hluta tjóns síns sjálfir í vinnuslysum þegar skaðabótaskylda vinnuveitanda er fyrir hendi.

Fleiri greinar