BÍLSLYS / UMFERÐARSLYS

Verði líkamstjón rakið til notkunar bifreiðar, er bótaréttur fyrir hendi úr  ábyrgðartryggingu hennar fyrir farþega og aðra sem verða fyrir slysi af  völdum bifreiðarinnar. Valdi ökumaður bifreiðarinnar sjálfur óhappinu, sem hann slasast í, á hann bótarétt úr slysatryggingu ökumanns og eiganda sem er lögboðin eins og ábyrgðartryggingin. Ekki þarf að  sanna sök til að eiga rétt á bótum vegna umferðarslyss. Bótaréttur er einfaldlega fyrir hendi ef slys verður.

Algengt er að fólk átti sig ekki á bótarétti sínum í umferðarslysi, verði það fyrir líkamstjóni. Það er t.d. útbreiddur misskilningur að fólk í órétti eigi ekki bótarétt vegna líkamstjóns sem það verður fyrir í umferðarslysi, Þetta er alrangt. Stór hluti af iðgjaldi fyrir hverja bifreið fer til tryggingar sem nefnist slysatrygging ökumanns og eiganda. Sú trygging á að gera ökumanninn jafnsettan farþegum.

Bótaskylt tryggingafélag á að bæta þeim sem lenda í umferðarslysum eftirtalið:

1. Útlagðan kostnað vegna slyssins s.s. kostnað vegna heimsókna til lækna, kostnað vegna sjúkrabifreiða, lyfjakostnað, sjúkraþjálfunarkostnað ofl. ásamt tjóni á fatnaði.

2. Tekjutap. Verði fólk óvinnufært vegna slyss á það rétt á að fá tekjutapið greitt frá tryggingafélaginu eftir að launarétti lýkur hjá vinnuveitanda, þar til stöðugleikamarki er náð.

3. Þjáningarbætur.

4. Miskabætur.

5. Bætur fyrir varanlega örorku.

6. Lögfræðikostnað að stærstum hluta.

7. Annað fjártjón.

Dæmi:

Jón Jónsson, smiður, lendir í árekstri þar sem ekið er aftan á bifreið hans. Hann slasast á baki og hálsi. Jón er óvinnufær eftir slysið í 4 mánuði og hlýtur 10% miska (læknisfræðilega örorku) og 10% varanlega örorku. Hann á bótarétt úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar sem olli tjóninu.Skaðabæturnar eru reiknaðar út frá eftirfarandi forsendum. Jón er 36 ára og hefur 400.000 kr. í mánaðarlaun. Tryggingafélag bifreiðarinnar bætir tekjutjón í 4 mánuði, eða alls 1.600.000 kr. Varanleg örorka er reiknuð út frá meðaltali launa hans 3 almanaksár fyrir slysið sem var 4.200.000. Launin eru margfölduð með stuðli sem miðast við aldur Jóns og er um 11,4. Því næst er margfaldað með örorkuprósentunni. Bætur fyrir varanlega örorku Jóns eru því um 4.800.000 kr. (4.200.000 x 11.4 x 10%). Hann á einnig rétt á miskabótum sem eru um 870.000 kr., auk þjáningarbóta um 180.000 kr.Alls eru bætur úr ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar því um 7.450.000 kr.