FRÍTÍMASLYS

Þeir sem lenda í slysi í frítíma eiga yfirleitt lakastan rétt og í sumum tilvikum jafnvel engan. Oft gilda þá einungis frítímaslysatryggingar sem eru í fjölskyldutryggingum tryggingafélaga. Þó geta slysatryggingar launþega gilt, ef hinn slasaði fellur undir kjarasamning sem gerir ráð fyrir bótum í frítíma. Ef viðkomandi er með almenna slysatryggingu, gildir hún um frítímaslys sem og slys í vinnu. Þá er rétt að taka fram að verði slys í frítíma, getur það verið bótaskylt úr ábyrgðartryggingu, ef einhver annar ber ábyrgð á slysinu, beint eða óbeint.

Dæmi

Jóna Jónsdóttir fer í Kringluna til að versla en verður fyrir því að falla niður um ófrágengið stigaop í verslun og ökklabrotnar. Eiganda verslunarinnar hefur láðst að ganga frá stigaopinu og á Jóna því rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu verslunarinnar ásamt því að fá bætur úr sinni eigin fjölskyldutryggingu. Bætur úr ábyrgðartryggingunni (sjá dæmi undir umferðarslys). Bætur úr fjölskyldutryggingu eru dagpeningar og örorkubætur. Jóna Jónsdóttir er metin óvinnufær í 2 mánuði eftir slysið og metin til 10% miska (læknisfræðilegrar örorku). Bætur úr fjölskyldutryggingu eru 390.000 kr. í dagpeninga og örorkubætur 10% af 8.000.000 eða 800.000 kr. Flest frítímaslys eru þó einungis bótaskyld úr fjölskyldutryggingu. Algengt er að fólk átti sig ekki á bótarétti úr þeirri tryggingu vegna frítímaslysa og að börn eigi þar einnig rétt.

Bætur úr þeirri tryggingu eru:

1. Dagpeningar.

2. Bætur fyrir læknisfræðilega örorku.