IS / EN / PL
Search
Close this search box.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-3369/2010

Stefnandi, umbj. Fulltingis, lenti í umferðarslysi í apríl 2008. Afstaða tryggingafélagsins var frá upphafi sú að skerða ætti bætur vegna líkamstjóns stefnanda um helming vegna meints stórkostlegs gáleysis hans. Félagið byggði á því að stefnandi hefði ekið of hratt samkvæmt vitnum og á vanbúinni bifreið vegna ófullnægjandi dekkjabúnaðar, ryðskemmda á hemlabúnaði og þar sem hraðamælir virkaði ekki sem skildi. Sú niðurstaða var staðfesti með úrskurði Úrskurðarnefndar vátryggingamála. Stefnandi höfðaði mál á hendur tryggingafélaginu. Í málinu lá fyrir bíltæknirannsóknarskýrsla sem lögregla hafði aflað vegna málsins og stefnandi mótmælti, en einnig dómkvaddi félagið matsmann til að meta líklegan ökuhraða stefnanda.

Í dómi héraðsdóms kemur fram að ekkert yrði ráðið um ökuhraða stefnanda af framburði vitna. Varðandi matsgerð dómkvadds matsmanns um ökuhraða stefnanda sagði héraðsdómari að miðað við mögulegan lágmarkshraða bifreiðarinnar skv. matsgerðinni þ.e. 82 km/klst. yrði ekki  fallist á að stefnandi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi við aksturinn þrátt fyrir að heimilli ökuhraði þar sem slysið varð hafi verið 60 km/klst, enda væri hámarksökuhraði víða á þjóðvegum landsins 80-90 km/klst og því almennt talið að ökumenn hafi fulla stjórn á ökutækjum á þeim hraða. Taldi héraðsómari því ekkert liggja fyrir um það að slysið hafi orðið vegna gáleysislegs hraðaaksturs stefnanda. Þá taldi héraðsómari ósannað að bifreið stefnanda hafi verið vanbúin, dekk hennar hefðu ekki verið slitin heldur hafi mynstur þeirra átt að vera með þeim hætti sem var og þá var ekki fallist á að bifreiðin hafi verið vanbúin þar sem hraðamælir hafi ekki virkað. Að lokum taldi héraðsdómari ekki unnt að leggja bíltæknirannsókn til grundvallar um ástand bifreiðarinnar hvað hemlabúnað varðaði enda ekki unnt að spyrja höfund hennar út í þau atriði sem byggt var á af hálfu tryggingafélagsin. Var því fallist á fulla bótaskyldu í málinu.

Fleiri greinar