Í málinu var deilt um það hvort húseigandinn N bæri ábyrgð á slysi sem M varð fyrir þegar hún féll í stiga í húsi í eigu N. M var á ættarmóti í húsinu, sem var fyrrum býli en er nú leigt út til hópa gegn greiðslu. Húsið er á tveimur hæðum með mörgum herbergjum, en á milli hæðanna er stigi. M var að ganga um stigann þegar hún datt illa, en klukkan hálf ellefu um kvöldið var ungur drengur að ganga um stigann þegar hann kom að M liggjandi þar meðvitundarlausri. Þegar lögreglan kom á vettvang voru björgunarsveitarmenn að hlúa að M, sem var fljótlega flutt á Landspítalann með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Í slysinu varð M fyrir alvarlegum höfuðáverkum.
M leitaði til lögmanna Fulltingis fljótlega eftir slysið og lýsti málavöxtum. Að mati lögmanna Fulltingis var strax ljóst að um afar hættulegan stiga væri að ræða. Stiginn var mjög brattur og efst í honum var hár þröskuldur sem auðvelt var að detta um. Þá var engin lýsing í honum auk þess sem þrepin voru mishæðótt svo fátt eitt sé nefnt. Þá hafði stiganum að engu leyti verið breytt eftir að sams konar slys átti sér stað þar árið 2011. Töldu lögmenn Fulltingis að vegna vanbúnaðarins ætti eigandi hússins, N, að bera skaðabótaábyrgð á slysinu og M að fá tjón sitt bætt að fullu úr frjálsri ábyrgðartryggingu hans. Lögmenn Fulltingis hófu gagnaöflun í málinu og sendu í kjölfarið bréf til vátryggingafélags húseigandans og fóru fram á fulla bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu hans hjá vátryggingafélaginu.
Vátryggingafélag húseigandans viðurkenndi bótaskyldu úr ábyrgðartryggingu húseigandans að hluta, en taldi rétt að láta M bera tjón sitt sjálfa að 1/4 hluta og vísaði til þess að ýmsar úrbætur hefðu verið gerðar á stiganum eftir slysið árið 2011, auk þess sem M hefði verið að drekka áfengi um kvöldið og væri skv. gögnum málsins með veik hné. Ljóst væri að hún hefði ekki sýnt af sér nægilega varúð þar sem hún gekk um stigann.
Niðurstöðu vátryggingafélagsins var skotið til úrskurðarnefndar í vátryggingamálum og var þess krafist að nefndin viðurkenndi fulla bótaskyldu úr ábyrgðartryggingunni, þ.e. óskertar bætur til M. Í málskotinu var á ný bent á hættueiginleika stigans og hversu vanbúinn hann var. Auk þess var byggt á því að ekkert í gögnum málsins benti til þess að M hefði verið ölvuð þegar slysið átti sér stað, eða að orsakatengsl væru á milli meintrar ölvunar og slyssins. Þá var bent á að M hefði ekki verið ljóst hversu hættulegur stiginn var enda hefðu engar aðvaranir verið til staðar auk þess sem ósannað væri að slysið væri að rekja til þess að hné M hefði gefið sig.
Í niðurstöðu úrskurðarnefndar kemur fram að stiginn þar sem slysið varð sé hættulegur og ekki sé um fullnægjandi umbúnað hans að ræða samkvæmt ákvæðum laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald. Þá var tekið fram að vátryggingafélagið bæri sönnunarbyrði fyrir því að slysið mætti rekja til gáleysis M. Nefndin taldi að þrátt fyrir að það lægi fyrir og væri viðurkennt í málinu að M hefði neytt áfengis þetta kvöld kæmi ekki fram í gögnum málsins að M hefði verið ölvuð þegar slysið átti sér stað. Þá lægi ekkert fyrir um það að veikleiki í hné M hafi verið orsakavaldur eða meðorsakavaldur að slysinu. Taldi nefndin því að vátryggingafélagið hefði ekki sannað að M hafi sýnt af sér gáleysi í umrætt sinn þannig að hún ætti sjálf að bera hluta tjóns síns. M ætti því rétt á óskertum bótum úr ábyrgðartryggingu húseigandans N hjá vátryggingafélaginu.
Í úrskurðinum er staðfest að strangar kröfur eru gerðar til þeirra sem leigja út húsnæði gegn greiðslu um að aðbúnaður í húsnæðinu sé fullnægjandi og valdi ekki slysahættu. Þá er úrskurðurinn staðfesting á því að áfengisneysla ein og sér leiðir ekki sjálfkrafa til skerðingar bóta, heldur þarf vátryggingafélagið að sanna að tjónþoli hafi verið ölvaður og að orsakatengsl séu á milli ölvunarinnar og slyssins.