IS / EN / PL

Dómur Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-488/2010

Í málinu var deilt um atvik slyss sem stefnandi lenti í við störf sín fyrir stefnda, Alcan í Straumsvík, þegar lyftari ók á hann. Stefndi hafði fallist á bótaskyldu í málinu en taldi stefnanda hafa sýnt af sér gáleysi og bæri því 50% eigin sök á slysinu. Stefndi hafði ekki kallað til Vinnueftirlit ríkisins eins og lög kveða á um, en stefnandi varð strax óvinnufær eftir slysið.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að slysið hafi ekki verið tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins eins og rétt hefði verið að gera, sbr. ákvæði 1. mgr. 79. gr. laga nr. 46/1980 um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Rannsókn hafi því ekki farið fram skv. 1. mgr. 81. gr. laganna. Stefni yrði af þeim sökum að bera hallann af skorti á sönnun í málinu um þau atriði er vörðuðu tildrög og orsök slyssins.

Þá var einnig vísað til þess að enginn hafi komið fyrir dóm af hálfu stenda til að gefa skýrslu. Stefnandi hafi mótmælt frásögn stefnda af því hvernig slysið atvikaðist. Yrði því við úrlausn málsins að byggja á frásögn stefnanda af atvikum, enda kæmi sú frásögn heim og saman við önnur gögn málsins. Þannig hafi áverkar stefnanda verið á kálfum hans sem stutt hafi framburð hans um að ekið hafi verið aftan á hann. Vegna hávaða á vinnustað hafi stefnandi verið með eyrnatappa og því ekki getað heyrt í lyftaranum sem kom akandi aftan að honum. Að sögn stefnanda hafði stefndi ráðlagt starfsmönnum í skautasmiðju að vera með eyrnatappa eða heyrnaskjól við vinnu sína.

Stefnandi hafi því beinlínis verið keyrður niður vegna aðgæsluleysis ökumanns lyftarans. Stefnandi hafi ekki sýnt af sér neina þá háttsemi sem leiddi til eigin sakar hans. Stefndi bar því fulla skaðabótaábyrgð á slysi stefnanda skv. reglum um vinnuveitandaábyrgð.

Sjá allan dóminn á vef héraðsdómstólanna

Fleiri greinar