IS / EN / PL
Search
Close this search box.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1930/2014

Í málinu var ágreiningur um hvaða viðmiðunarlaun bæri að leggja til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku stefnanda. Tryggingafélag stefnanda vildi að miðað yrði við lágmarkslaun skaðabótalaga. Stefnandi vildi að miðað yrði við meðallaun hjúkrunarfræðinga, því á slysdegi hafði hún lokið við 52,5% af námi í hjúkrunarfræði. Það skipti stefnanda miklu máli hvort miðað yrði við meðallaun hjúkrunarfræðinga eða lágmarkslaun skaðabótalaga. Mismunurinn þar á milli var um 3 milljónir króna, án vaxta og dráttarvaxta.

Stefnandi byggði á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga þar sem mælt er fyrir um að árslaun skuli meta sérstaklega þegar óvenjulegar aðstæður séu fyrir hendi. Í framkvæmd hefur verið talið heimilt að byggja á 2. mgr. 7. gr. skaðabótalaga hjá námsmönnum þegar námslok teljist hafa verið fyrirsjáanleg á slysdegi. Stefnandi byggði á því að námslok hefðu verið fyrirsjáanleg vegna þess hve langt hún var komin í námi, vegna þess hve lítið brottfall var úr náminu og með vísan til þess að hún hefði að lokum útskrifast og starfi í dag sem hjúkrunarfræðingur.

Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að um óvenjulegar aðstæður hefði verið að ræða hjá stefnanda. Taldi dómurinn rétt að miða við meðallaun hjúkrunarfræðinga, þar sem námslok stefnanda úr hjúkrunarfræðideild hefðu verið fyrirsjáanleg á slysdegi. Við matið á því hvort námslok hefðu verið fyrirsjáanleg þyrfti að líta til ýmissa atriða, annarra en hversu langt menn voru komnir í náminu á slysdegi. Líta yrði t.d. til brottfalls úr náminu og hvort viðkomandi hefði útskrifast úr náminu og farið að starfa við það.

Dómurinn er mikilvægur fyrir námsmenn sem lenda í slysum því hann staðfestir það að námsmenn þurfi ekki endilega að vera komnir að námslokum til þess að hægt sé að miða við það starf sem þeir eru að mennta sig til við útreikning á varanlegri örorku. Það sem skiptir mestu er að námslok hafi verið fyrirsjáanleg á slysdegi. Matið á því hvort námslok hafi verið fyrirsjáanleg er heildarmat sem ræðst ekki eingöngu af því hversu langt menn voru komnir í náminu. Hvaða viðmið er lagt til grundvallar útreikningi á varanlegri örorku kann að skipta þann sem verður fyrir líkamstjóni gríðarlega miklu máli.

Fleiri greinar