IS / EN / PL

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. E-1448/2011

A varð fyrir vinnuslysi við störf sín sem flugvirki fyrir stefnda, Icelandair ehf., í flugskýli á Keflavíkurflugvelli er hann féll niður af vinnupalli og slasaðist við það illa á fæti. Var A að vinna við uppsetningu á vinstri væng er slysið varð en við þá vinnu er notast við þar til gerða vinnupalla. Stóðu tveir vinnupallar saman og mynduðu eina heild. Ástæða þess að A féll niður af vinnupallinum var sú að búið var að fjarlægja innri vinnupallinn án þess að setja upp þar til gerða öryggiskeðju fyrir opið sem myndaðist. Var pallurinn sem A stóð á við vinnu sína því óvarinn.

Byggði A á því fyrir dómi að vinnupallurinn hefði verið óforsvaranlegur svona óvarinn og að þeir starfsmenn stefnda sem fjarlægðu vinnupallinn hefðu átt að setja upp þar til gerða öryggiskeðju strax. Sú öryggisregla hefði gilt á vinnustaðnum að setja ætti upp öryggiskeðjuna strax.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir orðrétt: „Með því að öryggisreglum var ekki framfylgt af hálfu vinnuveitanda, verður hann því látinn bera óskipta ábyrgð á tjóni [A], enda verður að ætla, að öryggiskeðja eða grind hefði getað komið í veg fyrir það.“ Stefndi var því dæmdur til þess að bera fulla skaðabótaábyrgð á slysi A skv. reglum um vinnuveitandaábyrgð.

Í málinu reyndi einnig á nýja lagagrein í skaðabótalögunum, 23. gr. a skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 124/2009, en sú lagagrein tók gildi þann 31. desember 2009. Sú grein kveður á um það að ef starfsmaður verður fyrir skaðabótaskyldu líkamstjóni í starfi sínu skuli hann eiga rétt til fullra bóta fyrir tjón sitt nema hann hafi verið meðvaldur að tjóni sínu af stórkostlegu gáleysi eða ásetningi.

Í málinu vildi stefndi m.a. skerða bótarétt A á þeim grundvelli að hann hefði sýnt af sér stórkostlegt gáleysi í aðdraganda slyssins. Í niðurstöðu héraðsdóms segir að slysið hafi orðið þegar A hafi verið að virða fyrir sér festingar á slöttum uppi á flugvélavængnum, og hafi ekki gætt að sér og stígið fram af pallinum. Dómurinn taldi það gáleysi, að stíga fram af óvörðum palli, ekki það stórfellt að A yrði látinn bera sjálfur sök á tjóni sínu. Fékk A því óskertar bætur.

Fyrir gildistíð 23. gr. a skaðabótalaga var í gildi meginreglan um meðábyrgð tjónþola/eigin sök tjónþola. Sú meginregla miðaði við að starfsmaður sem var meðábyrgur fyrir tjóni sínu þurfti að sæta skerðingu á skaðabótarétti til samræmis við meðábyrgðina. Enginn áskilnaður var um að það þurfti að vera sanngjarnt að starfsmaðurinn bæri slíka ábyrgð, eða að hann þurfti að hafa sýnt af sér stórkostlegt gáleysi eða ásetning, heldur nægði almennt gáleysi. Fyrir gildistíð lagagreinar 23. a skaðabótalaga hefði A því hugsanlega verið dæmdur til þess að bera tjón sitt sjálfur að hluta, e.t.v. að 1/3 hluta. Það er því ljóst að fyrrgreind lagabreyting hefur treyst stöðu starfsmanna sem lenda í skaðabótaskyldu líkamstjóni í starfi sínu, sem að einhverju leyti er rakið til háttsemi þeirra sjálfra, og er það afar ánægjulegt.

Fleiri greinar