IS / EN / PL

Erling í eigendahóp Fulltingis

Erling Daði Emilsson hefur gengið í eigendahóp lögmannsstofunnar Fulltingis. Erling hefur starfað hjá Fulltingi síðan 2008, þá fyrst sem laganemi en var ráðinn inn til stofunnar eftir útskrift árið 2010. Hann lauk mag.jur gráðu í lögfræði við Háskóla Íslands árið 2010 og öðlaðist réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómi árið eftir. Árið 2022 öðlaðist hann réttindi sem landsréttarlögmaður. Sérsvið Erlings liggur í skaðabóta- og vátryggingarétti.

Fulltingi er stærsta lögmannsstofa á Íslandi sem sérhæfir sig í slysa- og skaðabótum en hjá stofunni starfa 22 starfsmenn, þar af 11 lögfræðingar. Bergrún Elín Benediktsdóttir, sem var í eigendahópi Fulltingis, hefur söðlað um og horfið til annarra starfa. 

Óðinn Elísson, framkvæmdastjóri Fulltingis: „Það eru miklar gleðifréttir að fá Erling inn í eigendahóp Fulltingis. Við höfum fengið að vinna með honum í 16 ár og fengið að kynnast því hve öflugur lögmaður hann er. Fulltingi er leiðandi lögfræðistofa þegar kemur að slysa- og skaðabótamálum og er sérfræðiþekking Erlings í skaðabóta- og vátryggingarétti mikilvægur liður í að halda þeirri vegferð áfram. Við kveðjum einnig hana Bergrúnu en hún hefur ákveðið að halda á önnur mið og óskum við henni velfarnaðar og þökkum henni fyrir samvinnuna.“

Fleiri greinar