IS / EN / PL

Hæstaréttadómur nr. 10/2015 frá 21. maí 2015

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin

A gegn Tryggingamiðstöðinni hf.

http://www.haestirettur.is/domar?nr=10461

A lenti í umferðarslysi þann 24. nóvember 2008 er hún ók bifreið aftan á jeppabifreið eftir að ökumaður jeppabifreiðarinnar hemlaði skyndilega. A reyndi þá einnig að stöðva bifreið sína en við það rann bifreið A stjórnlaust áfram í hálku og skall aftan á krók jeppabifreiðarinnar. Þar sem engar skemmdir sáust á jeppabifreiðinni taldi ökumaður hennar óþarft að tilkynna slysið til lögreglu eða fylla út tjónstilkynningu og mótmælti A því ekki, enda kenndi hvorki hún né Þ, sem var farþegi í bifreiðinni, sér meins strax eftir slysið. Að auki taldi A sig hafa verið í órétti og þá var bifreið hennar ekki tryggð kaskótryggingu. Um kvöldið fór A að finna fyrir einkennum í hálsi og baki eftir slysið og leitaði hún að lokum til læknis tveimur dögum eftir slysið vegna afleiðinga slyssins. Í slysinu hlaut A varanlegt líkamstjón.

Þann 4. maí 2010 leitaði A til lögmanna Fulltingis vegna málsins og var þá sótt um bætur úr slysatryggingu ökumanns hjá vátryggingafélaginu T hf. Tryggingafélagið hafnaði hins vegar bótaskyldu því það taldi ósannað að A hefði orðið fyrir slysi umrætt sinn. Þá byggði T hf. einnig á því að frestur samkvæmt 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga hefði verði liðinn þegar A tilkynnti T hf. um vátryggingaratburðinn.

Í 124. gr. laga nr. 30/2004 er mælt fyrir um að sá sem á rétt til bóta samkvæmt slysatryggingu glati þeim rétti ef bótakrafa er ekki gerð á hendur vátryggingarfélaginu „innan árs frá því að hann fékk vitneskju um þau atvik sem hún er reist á“

Vegna afstöðu T hf. fór málið fyrir dóm. Héraðsdómur taldi að A hefði ekki fært fullnægjandi sönnun fyrir ábyrgð T hf. og sýknaði tryggingafélagið. Hæstiréttur snéri hins vegar dómi héraðsdóms við og taldi nægilega sannað að A hefði orðið fyrir umferðarslysi umrætt sinn.

Hæstiréttur vísaði til þess að A hefði staðfastlega haldið því fram að hún hefði slasast við það að bifreið, sem hún hefði ekið, hefði rekist aftan á aðra bifreið í hálku. Taldi rétturinn að framburður A fengi stoð í veðurlýsingu á slysdegi og vitnisburði Þ um að hún hefði verið farþegi umrætt sinn. Einnig væru eðlilegar skýringar á því að lögregla hefði hvorki verið kvödd til né tjónaskýrsla fyllt út í kjölfar árekstrarins. Þá hefði A leitað til læknis tveimur dögum eftir áreksturinn þar sem hún kvaðst hafa orðið fyrir slysinu auk þess sem í matsgerð sérfróðra manna hefði verið komist að niðurstöðu um að orsakatengsl væru milli slyssins og líkamstjóns A. Þá hefði héraðsdómari metið framburð A trúverðugan.

Varðandi tilkynningarfrest þann sem kveðið er á um í 1. mgr. 124. gr. laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga taldi Hæstiréttur að þegar krafist væri bóta vegna varanlegs tjóns bæri að miða upphaf frestsins við það hvenær tjónþoli hefði raunverulega gert sér grein fyrir að slys hefði varanlegar afleiðingar fyrir hann. Var litið svo á að fresturinn hefði ekki verið liðinn þegar tilkynning barst T hf. þann 4. maí 2010 og var krafa A um bætur því tekin til greina.

Ágreiningur aðila í ofangreindu máli sýnir að mögulegt er að sanna málsatvik á ýmsan hátt þrátt fyrir að svokölluð frumgögn séu e.t.v. ekki til staðar. Engu að síður er mikilvægt að einstaklingar reyni eftir bestu getu að tryggja sér sönnun um atvik slyss og tjón sem fyrst, helst strax á slysavettvangi, t.d. með því að tilkynna slys til lögreglu, fylla út ökutækjatjónstilkynningu á slysstað, taka myndir af vettvangi, fá símanúmer hjá vitnum o.s.frv. Ef slys á sér stað í eða við verslun er t. a. m góð regla að tilkynna verslunarstjóra um slysið og óska eftir skriflegri skýrslu. Slík sönnunargögn geta ráðið úrslitum varðandi bótarétt. Í ofangreindu máli skipti m.a. sköpum að einstaklingurinn leitaði til læknis tveimur dögum eftir slysið vegna verkja sem hún tengdi við slysið. Þá sýnir ofangreindur dómur einnig mikilvægi þess að ráðfæra sig strax við lögmann í kjölfar slyss. Bæði kemur það í veg fyrir að bótaréttur glatist sökum tilkynningarfrests, auk þess sem mikilvægt er að koma málunum í réttan farvegi eins fljótt og auðið er.

Fleiri greinar