A gegn Sjúkratryggingum Íslands
Í málinu greindu A og S fyrst og fremst á um hvort tjón A af völdum mistaka við lyfjagjöf hjá heilsugæslustöð hefðu valdið varanlegri skerðingu á getu hennar til að afla sér vinnutekna skv. 1. mgr. 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 111/2000 um sjúklingatryggingu. Til stuðnings því að svo væri vísaði A til matsgerðar dómkvaddra matmanna þar sem talið var að varanleg örorka hennar væri 5%. S hélt því aftur á móti fram að ákvörðun sín um 0% varanlega örorku, sem staðfest hafði verið af úrskurðarnefnd almannatrygginga, væri byggð á vönduðu mati sérfróðra manna og vægi það mat þyngra en mat hinna dómkvöddu matsmanna.
Í dómi Hæstaréttar kom fram að matsgerð sérfróðra manna, sem dómkvaddir hefðu verið, hafi að öðru jöfnu ríkt sönnunargildi í einkamálum sökum þess að þeir skulu vera óvilhallir og gefa báðum aðilum kost á að gæta hagsmuna sinna við matið. Sama eigi ekki við um ákvörðun S þótt hún væri byggð á sérfræðilegu mati. Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna um varanlega örorku A væri ítarlega rökstudd og í samræmi við 2. mgr. 5. gr. skaðabótalaga. Var því fallist á mat þeirra um að varanleg örorka A væri 5%. Var úrskurður úrskurðarnefndar almannatrygginga því ógiltur og bætur til A ákvarðaðar með hliðsjón af 1. mgr. 7. gr. skaðabótalaga.