IS / EN / PL

Hver stendur Vörð um þína hagsmuni?

Árið 2013 lenti maður í alvarlegu umferðarslysi þar sem hann ók bifhjóli sínu aftan á bifreið. Niðurstaða Hæstaréttar sýnir mikilvægi þess að þeir sem slasast leiti til sérfræðinga þegar slys ber að höndum.

Í Hæstarétti var hinn 9. febrúar sl. kveðinn upp dómur sem hefur áhrif á rétt tjónþola til upplýsinga um sín mál hjá tryggingafélögum. 

Árið 2013 lenti maður í alvarlegu umferðarslysi þar sem hann ók bifhjóli sínu aftan á bifreið. Hann leitaði til Fulltingis og fól okkur að gæta hagsmuna sinna gagnvart tryggingafélaginu Verði, en þar var hann tryggður með lögboðinni slysatryggingu sem ökumaður bifhjólsins.  

Tryggingafélagið ákvað að takmarka ábyrgð sína og bætur til mannsins um 50% og tilkynnti um það 18 mánuðum eftir slysið, eða 15 mánuðum eftir að Fulltingi hafði óskað eftir afstöðu félagsins.  Ástæðan var sú að tryggingafélagið taldi ökumann bifhjólsins hafa ekið á ofsahraða, en hann hafði neitað slíkum akstri frá upphafi.  

Í lögum kemur fram að sá sem á rétt til bóta úr vátryggingu eins og slysatryggingu ökumanns eigi rétt á því að fá svör um það án ástæðulauss dráttar hvort tryggingafélag ætli að takmarka ábyrgð sína og skerða bætur.   

Fulltingi lagði í hagsmunagæslu sinni áherslu á það að sá langi tími sem það tók Vörð að svara til um ábyrgð sína væri mun lengri en orðalagið án ástæðulauss dráttar leyfði. Tryggingafélagið hafði fengið lögregluskýrslu um slysið strax, en byggði á því að það hefði ekki getað tekið afstöðu nema fá frekari gögn og þau hafi ekki borist fyrr frá lögreglu.

Hæstiréttur tók undir málflutning Fulltings fyrir hönd hins slasaða að tryggingafélagið hefði tekið sér of langan tíma til að svara til um takmörkun sína á ábyrgð, það hefði haft næg gögn í upphafi til að láta vita um mögulegar fyrirætlanir sínar, ekki gengið eftir því að fá frekari gögn afhent og það hvíldi á tryggingafélaginu skylda til þess að ganga á eftir slíkum gögnum til að geta upplýst fyrr um afstöðu sína. 

Niðurstaða Hæstaréttar sýnir mikilvægi þess að þeir sem slasast leiti til sérfræðinga þegar slys ber að höndum. Sérfræðinga sem standa vörð um þeirra hagsmuni.

Fleiri greinar