Chat with us, powered by LiveChat

Mótorhjólaslys

Ritstjórn Fulltingis
mm

Til okkar leitar oft fólk sem hefur lent í vélhjólaslysum. Þá verðum við iðulega vör við þann misskilning að ökumenn mótorhjóla eigi ekki sama rétt og einstaklingar sem lenda í bílslysi. Við bendum þessu fólki á að þeir sem slasast í vélhjólaslysi, hvort sem um ökumann eða farþega er að ræða, geti átt rétt á bótum, annað hvort úr slysatryggingu ökumanns- og eiganda eða ábyrgðartryggingu.

Síðan er komið að því að aðstoða þessa einstaklinga við að kanna rétt þeirra til bóta og fá það greitt sem þeim ber. Sömu tryggingaskilmálar gilda fyrir mótorhjól og bifreiðar. Mótorhjólatryggingar eru þó öðruvísi en bílatryggingar að því leyti að stærstur hluti tryggingabóta kemur vegna slysa á ökumanni en ekki vegna tjóns sem hendir þriðja aðila. Skýringin er augljós, ökumenn bifhjóla eru langoftast einir á ferð.

Ég hvet þig til að kynna þér þennan leiðarvísi vel, hvort sem þú hefur lent í vélhjólaslysi eða þekkir einhvern sem þannig er ástatt um og þarf á traustum upplýsingum að halda.
Hikaðu heldur ekki við að hafa samband: https://fulltingi.is eða í síma 533 2050.

Óðinn Elísson, sérfræðingur í bótum vegna bifhjólaslysa.


Fyrsta skref eftir mótorhjólaslys er að fara til læknis

Hvað á að gera eftir mótorhjólaslys?

 

Helstu atriði til að hafa í huga eftir mótorhjólaslys

 • Tryggja sönnun slyss, t.d. með aðkomu lögreglu, ökutækjatjónstilkynningu og/eða ljósmyndum af vettvangi.
 • Leita sem fyrst til læknis, lýsa atvikum slyss og afleiðingum.
 • Leita til lögmanns. Lögmaður heldur þá utan um þín mál og kemur því í réttan farveg, kallar eftir vottorði frá læknum, stendur vörð um fjárhagslega hagsmuni þína og ráðleggur þér hvernig best er að bera sig að.

Hvers vegna átt þú að leita þér faglegrar aðstoðar eftir mótorhjólaslys?

Slys eru alvarlegir atburðir sem geta gerbreytt aðstæðum í lífi okkar. Eftir slys geta lögin virst flókin ásamt óvissu um kostnað. Ofan á það geta erfiðleikarnir verið líkamlegir, sálrænir og félagslegir.

Það er t.d. mjög algengt að fólk:

 • Fari úr jafnvægi við slys
 • Reyni að útloka slysið og allt sem því tengist úr huga sér
 • Reki slysið til eigin mistaka og fyllist sektarkennd.

Af þessum sökum sjá margir ekki ástæðu til að leita réttar síns til skaða- eða slysabóta og missa því af þeim fjárhagslega stuðningi sem þeir eiga rétt á úr viðeigandi tryggingu. Slíkur stuðningur er dýrmætur á meðan gengið er í gegnum ferli sem reynir á bæði líkamlega og andlega hlið.

 

 

Eftir mótorhjólaslys er mikilvægt að leita ráða hjá lögfræðingum.

Bætur eftir slys

Hvernig bótum geta mótorhjólaeigendur átt von á eftir slys?

Almenn ranghugmynd er að mótorhjólaeigendur eigi ekki sama rétt og einstaklingar sem lenda í bílslysi. Eins og með bílaeigendur, geta einstaklingar sem slasast í vélhjólaslysi, hvort sem um ökumann eða farþega er að ræða, átt rétt á bótum, annað hvort úr slysatryggingu ökumanns- og eiganda eða ábyrgðartryggingu.

Bætur sem greiðast úr þessum tryggingum geta m.a. verið:

 • Sjúkrakostnaður
 • Hlífðarfatnaður og hjálmur
 • Tímabundið atvinnutjón
 • Bætur fyrir þjáningar, miska og varanlega örorku.

Hvernig er ferill bótamáls? 

Gagnaöflun hefst um leið og tjónþoli leitar til lögmanns. Það er misjafnt eftir afleiðingum slyss hvenær tímabært er að meta varanlegar afleiðingar slyssins en það er þó í fyrsta lagi þegar ár er liðið frá slysi og öll nauðsynleg gögn liggja fyrir. Þegar mat á afleiðingum slyssins liggur fyrir fer bótauppgjör fram.

Skiptir máli hvort hinn slasaði var í órétti?

Nei. Það skiptir ekki máli. Það skiptir heldur ekki máli hvort slysið átti sér stað vegna árekstrar eða hvort viðkomandi missti stjórn á því vegna utanaðkomandi þátta.

Hvað kostar að leita til lögfræðings?

Ef um umferðarslys er að ræða eða önnur skaðabótaskyld atvik, greiðir tryggingafélagið stærstan hluta lögfræðikostnaðarins fyrir þann sem slasast.

Í kjölfar mótorhjólaslyss er mikilvægt að sá sem fyrir slysinu varð ráðfæri sig sem fyrst við lögmann. Hjá Fulltingi er lögð áhersla á að tjónþoli tapi aldrei á að kynna sér rétt sinn. Fyrsta viðtal er ávallt tjónþola að kostnaðarlausu. Einnig mun tjónþoli ekki greiða neina þóknun ef engar bætur fást eftir að mat liggur fyrir. 

 

 

Tryggingar

Hvernig tryggingar er nauðsynlegt að taka sem bifhjólaeigandi og afhverju?

Það þarf að tryggja öll mótorhjól sem eru skráningarskyld. Ábyrgðartrygging og slysatrygging ökumanns & eiganda eru innifaldar í tryggingunni. Þetta er skyldutrygging.

Þó torfæruhjól séu eingöngu notuð í braut er mikilvægt að ökumaður sé tryggður slysatryggingu ökumanns og eiganda annars er bótaréttur ekki til staðar þó komi til slyss.

Sömu skilmálar gilda fyrir mótorhjól og bifreiðar. Mótorhjólatryggingar eru þó öðruvísi en bílatryggingar að því leyti að stærstur hluti tryggingabóta kemur vegna slysa á ökumanni en ekki vegna tjóns sem hendir þriðja aðila. Skýringin er augljós, ökumenn bifhjóla eru langoftast einir á ferð.

Tryggingar fyrir þá sem keppa á mótorhjólum

Þeir sem keppa á mótorhjólum þurfa að vera með sérstakan viðauka í tryggingunni sinni til þess að hún gildi í keppni. Þessi viðbótartrygging kostar lítið en eykur verulega gildissvið tryggingarinnar. Ef þessi viðauki er ekki tekinn er ökumaður vélhjólsins ótryggður í keppni og við æfingar fyrir keppni. Þeir sem fara til útlanda til að hjóla eða keppa í bifhjólaakstri, þurfa að bæta því sérstaklega inn ef tryggingin á að gilda þar. Þeir sem eiga og nota þung mótorhjól verða að vera meðvitaðir um að þeir hafi réttindi til að aka þeim. Vanti réttindin, getur það skert eða fellt niður bótarétt komi til mótorhjólaslyss.

Velur maður mismunandi tryggingar eftir gerð mótorhjóla eða aldri?

Nei.

Hvað kosta mótorhjólatryggingar?

Iðgjöld mótorhjólatrygginga ákvarðast m.a. af þeirri notkun sem hjólin eru gerð fyrir.

Hægt er að taka tryggingar þar sem heimilt er að leggja inn skráningarnúmer mótorhjólsins hluta úr ári. Þá fæst iðgjaldið hlutfallslega endurgreitt miðað við þann tíma sem hjólið er ekki í notkun.

Getur bifhjólaeigandi misst bótarétt?

Bótaréttur hugsanlega skerst eða glatast ef ökumaður mótorhjólsins sýnir af sér stórkostlegt gáleysi við akstur og slys verður rakið til þess.

 

 

Hvar eru bifhjólamenn líklegastir til að slasa sig eftir mótorhjólaslys

Slysatíðni

Hvar gerast algengustu mótorhjólaslysin?

Hlutfall alvarlegra meiðsla vegna vélhjólaslysa eru mjög há miðað við önnur umferðarslys. Ökumenn bifhjóla eru í allt að átta sinnum meiri hættu á að slasast í umferðarslysi en ökumenn annarra farartækja

 1. Þung mótorhjól koma við sögu í 75% mótorhjólaslysa en létt bifhjól 25%. 
 2. 75% bifhjólaslysa verða vegna árekstrar við annað ökutæki. 
 3. 25% slysanna verða vegna árekstrar við kyrrstæðan hlut. 

Hvar slasast bifhjólamenn helst?

Algengustu tegundir meiðsla eru á höfði, hálsi og fótum. Þetta á bæði við um farþega og ökumenn bifhjóla. Hæsta tíðni mótorhjólameiðsla eru fyrir neðan hné og sérstaklega í kringum ökklann. Næst hæsta tíðni meiðsla eru fyrir ofan háls. 

1 2  3

 

 

Forvarnir eru mikilvægur hlutur til að koma í veg fyrir mótorhjólaslys

Forvarnir

Staðsetning á akbraut

Í dag er sérstaklega mikilvægt að fylgjast vel með bílaumferð vegna aukinnar notkunar snjallsíma undir stýri. Rétt staðsetning ökumanns bifhjóls eykur sýnileika hans, gefur honum yfirsýn á umferðina í kringum sig og sendir skilaboð til annara vegfarenda um að hjólið þurfi nægilegt rými. Vélhjólamaður getur ekki alltaf treyst á að athygli annarra vegfarenda sé í lagi, því er mikilvægt að aka ekki vélhjóli í blindsvæði bíla. Þegar ekið er of nálægt öðru hvoru afturhorni bifreiðar sést hjólið ekki í baksýnisspeglum. Einnig er nauðsynlegt að vera meðvitaður um sinn eigin hraða. Sjónsvið okkar versnar eftir því sem við ökum hraðar. Þegar hraðinn er orðinn mikill minnkar sjónarsviðið niður í 30 gráður sem eykur líkur á slysi.

Búnaður bifhjólamanna

Samkvæmt íslenskum lögum þurfa allir bifhjólamenn að nota hjálm við akstur. Engar reglur eru hins vegar um hlífðarfatnað. Rannsóknir og slysatíðni gefa þó til kynna nauðsyn þess að vera vel varinn.

Skóbúnaður

Algengustu meiðsli eru fyrir neðan ökkla vegna þess að skóbúnaður ökumannsins er ófullnægjandi. Ökklameiðsli geta verið alvarleg, þar sem svæðið er afar viðkvæmt. Þar er fjöldi æða, tauga og sina. Margir sem lenda í slæmum ökklabrotum eiga hægan bata eða ná sér oft aldrei að fullu. Vegna hárrar tíðni fótameiðsla ökumanna bifhjóla er lykilatriði að skóbúnaður sé í lagi. Besti kosturinn er mótorhjólastígvél með ökklavörn og hlíf utan um fæturna. Leðurstígvél án hlífa geta gert sitt gagn en strigaskór eða annar skóbúnaður, sem er ekki hannaður fyrir bifhjól, býður hættunni heim. Slíkir skór veita ekki stuðning við ökkla og hætt er við að reimar flækist í hreyfanlegum hlutum hjólsins. 

Hjálmar

Hægt er að kaupa bæði opna og lokaða vélhjólahjálma. Opnir hjálmar verða í flestum tilvikum fyrir valinu vegna útlits fremur en öryggiseiginleika. Samkvæmt rannsóknum lendir nær helmingur allra höfuðhögga í mótorhjólaslysum á andlitssvæðinu. Því er mikilvægt að nota lokaðan hjálm til að verjast höggum sem koma beint framan á ökumann vélhjólsins. Tryggja þarf að hjálmurinn fylgi gæða- og prófunarstöðlum Evrópusambandsins eins og ECE 22.05.

Líkamsbrynjur

Mörg minni háttar meiðsli á ökumanni mótorhjóls ganga til baka. Brotin bein og fingur gróa en hryggsúlan er ekki gædd þeim eiginleikum. Nýrnabelti og líkamsbrynjur er mikilvægur hlífðarbúnaður sem margir gleyma. Nýrnabelti veita stuðning við innvortis líffæri og auka vellíðan við langan akstur með því að halda ökumanni uppréttari. Líkamsbrynjur vernda bak og brjóstkassa. Þær geta einnig veitt vörn gegn stungusárum en aðalhlutverk þeirra er að styðja bakið við árekstur.

Hálskragar

Hálskragar halda hálsi ökumanns vélhjólsins beinum við högg og veita nauðsynlegan stuðning í lengri ökuferðum. Kragar verja þó ekki eingöngu hálsinn heldur veita þeir viðbeininu einnig aukna vörn, en viðbeinsbrot er algengt beinbrot meðal bifhjólamanna. Í flestum tilvikum brotnar viðbein bifhjólamanna þegar þeir falla á hliðina og rétta út höndina til þess taka á móti fallinu. Hálskragi getur minnkað aflið sem færist út í viðbeinið og þar af leiðandi komið í veg fyrir þetta algenga beinbrot.

 4 5  6

 

 

Viðhald er mikilvægt til að koma í veg fyrir mótorhjólaslys

Viðhald mótorhjóla

 

Mótorhjól þurfa sérstaka athygli þegar kemur að viðhaldi. Alveg eins og með bíla, þurfa þau nákvæma skoðun á hverju ári hjá sérfræðingi. Nokkur atriði þarf ökumaður hins vegar sjálfur að skoða reglulega, jafnvel fyrir hverja einustu ökuferð. Með því að fylgjast vel með ástandi hjólsins tryggja bifhjólaeigendur að það gangi eðlilega, minnka slysahættu og halda endursöluvirði hjólsins í hámarki.

Regluleg skoðun / viðhald

 • Skv. nýjust reglugerð þarf lágmarks mynstursdýpt dekkja á að vera 1,6 millimetrar yfir sumartímann og 3,0 yfir vetrartímann.7
 • Jafnvægisstilla þarf felgur á mótorhjólinu eftir öll dekkjaskipti.
 • Athuga loftþrýsting dekkja reglulega, sérstaklega eftir geymslutíma yfir veturinn. Eiga lítinn loftþrýstingsmæli sem er geymdur á hjólinu.
 • Fylgjast með ástandi hemla. Bremsur mega aldrei ganga lengra niður en ⅔ af heildarhreyfigetu.
 • Prófa hjólalegur reglulega. Það er gert með því að taka með báðum höndum um mótorhjólið og skekja það til.
 • Skoða ástand keðju og gæta þess að hún sé rétt strekkt. Keðja á vélhjóli, sem slitnar í akstri, getur fest afturhjólið og valdið slysi.
 • Skoða olíumæli reglulega.
 • Athuga virkni ljósa. Bifhjól sjást verr en bílar og því er mikilvægt að gæta þess að öll ljós virki eðlilega.

Þó allra varúðaráðstafana sé gætt verða mótorhjólaslys og þá er mikilvægt að leitað sé til læknis sem fyrst. Í beinu framhaldi er nauðsynlegt að leita til sérhæfðs lögmanns í skaðabótarétti sem leiðbeinir tjónþola og kemur málinu í réttan farveg.


Áhugaverðir hlekkir

https://www.samgongustofa.is/umferd/fraedsla-og-oryggi/fraedsla/bifhjol/oryggi-bifhjolamanna/

http://www.maids-study.eu/pdf/MAIDS2.pdf

https://en.wikipedia.org/wiki/Hurt_Report

https://www.samgongustofa.is/umferd/fraedsla-og-oryggi/fraedsla/bifreidar-og-almenn-fraedsla/Hjolbardar

https://en.wikipedia.org/wiki/List_of_findings_in_the_Hurt_Report

https://rideapart.com/articles/10-common-motorcycle-accidents-and-how-to-avoid-them

Tryggingafélög

https://www.tm.is/

https://www.sjova.is/

https://www.vis.is/

https://vordur.is/

http://tmi.is/

Mótorhjólatryggingar

https://www.vis.is/einstaklingar/a-ferdinni/farartaeki/bifhjolatrygging/

https://www.tm.is/motorhjol

https://vordur.is/einstaklingar/okutaeki/okutaekjatrygging/

Heimildir

 1. Hurt report niðurstöður
 2. Maids report
 3. Öryggi bifhjólamanna / Samgöngustofa
 4. Hurt report niðurstöður
 5. Maids report
 6. Öryggi bifhjólamanna / Samgöngustofa
 7. Reglugerðir um hjólbarða / Samgöngustofa

Tengdar fréttir