IS / EN / PL

Úrskurður í máli nr. 218/2011 hjá Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

Í málinu var deilt um atvik vinnuslyss sem M lenti í þegar hann var að setja upp loftplötur. Slysið varð með þeim hætti að M ætlaði að stökkva á milli vinnupalla þegar honum strikaði fótur og féll til jarðar á milli vinnupallana með þeim afleiðingum að hann hlaut töluvert líkamstjón. Vátryggingafélag vinnuveitandans hafnaði bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu með þeim rökum að M hafði starfað hjá vinnuveitanda frá árinu 1990 og hafði um 30 ára reynslu af slíkum störfum. Þá hafi hann haft mikla reynslu af uppsetningu vinnupalla og bæri sjálfur sem verkstjóri í umrætt sinni ábyrgð á frágangi vinnupalla. Þá benti félagið á að M hafi ekki getað dulist hættan af því að stökkva á milli vinnupalla eins og hann hafði gert umrætt sinn. Taldi félagið því ósannað að slysið mætti rekja til sakar vinnuveitanda.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar segir að samkvæmt umsögn Vinnueftirlitsins voru engar ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir fall af vinnupöllunum þar sem bil var á milli þeirra, en hæð pallsins sem M stökk af hafi verið um 5 metrar en hinn um 4,2 metrar. Taldi Vinnueftirlitið að slysið mætti rekja til þess að verið var að vinna á vinnupalli þar sem óvarið op/bil var á milli vinnupallanna og engar ráðstafanir hafi verið gerðar til að koma í veg fyrir fall við opið/bilið. Bar vinnuveitandi að hlutast til um það og ber ábyrgð á því vinnuaðstæður séu með þeim hætti að ekki stafi hætta af þeim búnaði sem starfsmenn vinna við. Bar vinnuveitandi því sök á því að M varð fyrir slysi umrætt sinn. Úrskurðaði nefndin því að M ætti rétt á fullum bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu vinnuveitanda.

Fleiri greinar