IS / EN / PL

Úrskurður í máli nr. 29/2011 hjá Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

Í málinu var deilt um atvik slyss sem M lenti í er hann vann við að setja upp varmaskipti í loftræstiklefa. Var M staddur inni í varmaskiptinum þegar festingar gáfu sig og varmaskiptirinn féll saman en við það klemmdist M á milli efri og neðri hluta varmaskiptisins. Þegar samstarfsmenn reyndu að losa M brotnaði öryggisplata sem sett hafði verið til að halda efri hlutanum með þeim afleiðingum að M klemmdist aftur. Vátryggingafélag vinnuveitanda féllst á bótaskyldu í málinu en taldi að M ætti að bera eigin sök að 1/3 hluta þar sem hann hefði tekið þátt í útfærslu verksins ásamt verkstjóra.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar segir að ekki var gætt að því að kalla til Vinnueftirlit ríkisins í kjölfar slyssins og ber vinnuveitandi M ábyrgð á þeirri vanrækslu. Þá kom fram að M hafði ekki með höndum stjórn verksins í umrætt sinn heldur var verkstjóri á staðnum frá vinnuveitanda. Jafnvel þótt umræður hafi orðið milli starfsmanna um það með hvaða hætti yrði best að leysa verkið af hendi taldi úrskurðarnefndin að það leysti ekki vinnuveitanda undan þeirri ábyrgð að tryggja öryggi starfsmanna sinna. Taldi nefndin að ekkert hefði fram komið sem benti til þess að M hefði hagað sér með þeim hætti að eðlilegt væri að fella sök á hann vegna slyssins. Úrskurðaði nefndin því að M ætti rétt á fullum bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu vinnuveitanda.

Fleiri greinar