IS / EN / PL

Úrskurður í máli nr. 323/2011 hjá Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

Share on facebook
Share on twitter
Share on linkedin

Þann 15. nóvember 2009 skar M sig á löngutöng vinstri handar. M leitaði samdægurs á slysa- og bráðadeild Landspítalans. Skurðsárið var saumað saman með hefðbundnum hætti. Tveimur dögum síðar, 17. nóvember 2009, leitaði M á ný á slysadeildina og reyndist þá með sveigju um fjærlið fingursins sem var talin merki um réttisinaskaða. Að höfðu samráði við bæklunarlækni var meðferð hafin með fingurspelku. Er spelkan var tekin þann 21. desember 2009 gat M nánast rétt að fullu úr fingrinum að því er segir í nótu læknis. M hafi átt tíma á endurkomudeild 1. febrúar 2010 en mætti ekki. Hinn 5. febrúar 2010 leitaði M til bæklunarlæknis á stofu. Skv. fyrirliggjandi vottorði bæklunarlæknisins ræddi læknirinn við M um áverkann á fingrinum og hugsanlega meðferðarmöguleika en ekki væri að vænta fulls bata.

M hafði í gildi frítímaslysatryggingu hjá X. Hinn 25. janúar 2011 tilkynnti M um slysið til X. X hafnaði bótaábyrgð með vísan til þess að eins árs tilkynningarfrestur skv. 1. mgr. 124. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004 (vsl.) hafi verið liðinn þegar því var tilkynnt um slysið. Telur X að M hafi fengið vitneskju um þau atvik sem krafan er reist á þegar spelkan var fjarlægð af fingrinum 21. desember 2009.

Í  niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar er vísað til gagna málsins við mat á 1. mgr. 124. gr. vsl. Í nótu læknis á slysa- og bráðadeild liggur ekkert fyrir um ástand fingursins, þ.á.m. hvort um varanlegar skaða yrði að ræða. Lýsing í nótu gefur fremur til kynna að M myndi jafna sig að fullu. Við skoðun hjá bæklunarlækni 5. febrúar 2010 virðist á hinn bóginn ekki hafa farið á milli mála að um varanlegan skaða væri að ræða. Það var því innan árs sem M tilkynnti um atvikið til X. Með vísan til þess taldi nefndin að M ætti rétt á bótum úr frítímaslysatryggingu hjá X.

Fleiri greinar