IS / EN / PL
Search
Close this search box.

Úrskurður í máli nr. 386/2011 hjá Úrskurðarnefnd í vátryggingamálum

Í málinu var deilt um atvik vinnuslyss sem M lenti í þegar hann var við verkamannastörf hjá verktakafyrirtækinu V í Héðinsfjarðargöngum. Unnið var við að færa til vinnupalla úr tré. Slysið varð með þeim hætti að M fór upp á vinnupall í þeim tilgangi að festa stroffur upp á krók svo hægt væri að flytja vinnupallinn með byggingarkrana á milli staða. Féll vinnupallurinn þá niður og slasaðist M við fallið. Ástæða þess að pallurinn féll niður var talin vera sú að hann var laus og óstöðugur.

Vátryggingafélag vinnuveitandans hafnaði bótaskyldu úr frjálsri ábyrgðartryggingu með þeim rökum að M hefði vitað um óstöðugleika vinnupallsins og hefði því verið í lófa lagið að beita öðrum heppilegri aðferðum við verkið, t.a.m. hefði að mati vátryggingafélagsins mátt nota stiga til að festa stroffuna, óska eftir aðstoð annars starfsmanns eða nota lengri stroffu. Einnig taldi vátryggingafélagið að allir sem þarna voru við störf hefðu mátt vita að ekki væri búið að festa pallana nægilega og því hefðu þeir verið óstöðugir. Væri því ekki hægt að kenna vinnuveitanda V um slysið og verklag M umrætt sinn.

Í niðurstöðu úrskurðarnefndar er í fyrsta lagi áréttað að vinnuveitandi V tilkynnti ekki slysið til lögreglu né heldur Vinnueftirliti ríkisins eins og skylt er skv. ákvæðum vinnuverndarlaga. Í ljósi þessarar vanrækslu vinnuveitanda V varð V að bera hallann af því sem óljóst var um málsatvik og orsök þess að vinnupallurinn féll.

Vísaði nefndin síðan til þess að ekkert benti til þess að M hefði umrætt sinn unnið verkið öðruvísi en hann var vanur að gera. Þá taldi nefndin ósannað að M hefði vitað eða mátt vita að pallurinn hafi verið laus og óstöðugur og vísaði til þess að enginn virðist hafa varað hann við áður en hann fór upp á pallinn. Taldi nefndin því að rekja mætti slysið til þess að verkstjórn hafði verið áfátt hjá vinnuveitanda V. Bar vinnuveitandi V því sök á því að M varð fyrir slysinu umrætt sinn. Taldi nefndin ennfremur að ekkert hefði fram komið sem benti til þess að M hefði hagað sér með þeim hætti að eðlilegt væri að fella sök á hann vegna slyssins. Úrskurðaði nefndin því að M ætti rétt á fullum bótum úr frjálsri ábyrgðartryggingu vinnuveitanda.

Fleiri greinar