IS / EN / PL

Varúð! Afturför í tryggingavernd

Nú um áramótin taka gildi ný lög um ökutækjatryggingar. Þar er afnumin sú skylda eigenda torfærutækja, snjósleða, fjórhjóla og torfærumótorhjóla að tryggja ökumenn tækjanna sérstaklega. Sú skylda hefur verið við lýði síðan árið 1988 og voru helstu rök fyrir þeirri skyldu þau að hættueiginleikar allra vélknúinna ökutækja væru svo miklir að eðlilegt væri að slysatryggingar ökumanna þeirra væru lögbundnar og bótagreiðslur færu eftir reglum skaðabótalaga. Þessi hætta hefur ekki minnkað, hún hefur jafnvel aukist með kraftmeiri tækjum og verður ekki séð hvað kallar á breytingu varðandi þessi tilteknu tæki. Þá vaknar einnig spurningin, til hagsbóta fyrir hvern er þessi breyting?

Þessi breyting  um áramótin kann að láta lítið yfir sér, en felur í sér verulega afturför frá því sem núgildandi lög áskilja. Hún þýðir að frá og með áramótum eru ökumenn snjósleða, fjórhjóla og torfærumótorhjóla ótryggðir með öllu lendi þeir í slysi við notkun tækjanna. Hún þýðir einnig að allir sem leigja sér vélsleðaferð eða fjórhjólaferð eru ótryggðir sem ökumenn á tækjunum verði þeir fyrir slysi. Þetta gildir einnig um bændur, veiðimenn, hjálparsveitarmenn og aðra sem nota torfærutæki. 

Þetta þýðir á mannamáli að tekjutap vegna óvinnufærni, útlagður kostnaður vegna læknismeðferðar og varanlegar afleiðingar slyssins fást ekki bættar.

 

Tryggingafélögin

Þrátt fyrir að þessi lagabreyting sé vond og illskiljanleg þá er sennilega öllu verri sú ákvörðun flestra tryggingafélaganna að ákveða að hætta að selja eigendum þessara tækja slysatryggingu ökumanns og eiganda frá og með næstu áramótum. Þetta þýðir einfaldlega að eigandi fjórhjóls eða vélsleða getur ekki keypt þá tryggingu sem áður var lögbundin, þrátt fyrir að hann óski eftir því og sé tilbúinn að greiða fyrir það iðgjald. Ég hvet því eigendur torfærutækja til að kanna hvernig þessu verður háttað hjá þeirra tryggingafélagi.

Þessi ákvörðun flestra tryggingafélaganna er vægast sagt sérkennileg því að þó svo að með lögunum sé felld niður skylda til að kaupa þessa tryggingu þá banna þau tryggingafélögunum ekki á nokkurn hátt að halda áfram að selja hana þeim sem vilja kaupa hana og greiða fyrir. Ég hélt í einfeldni minni að rekstur tryggingafélaga gengi út á að selja tryggingar, þeim sem vilja kaupa þær.

Flest tryggingafélögin benda nú hins vegar viðskiptavinum sínum á að þeir geti keypt sér almenna slysatryggingu sem er allt önnur vernd og lakari en slysatrygging ökumanns og eiganda var áður. 

Með öðrum orðum þá er þessi lagabreyting og ákvörðun flestra tryggingafélaganna í kjölfarið mikil afturför frá því sem hefur verið um áratuga skeið í slysatryggingavernd til handa þeim sem eiga og nota torfærutæki.

 

Höfundur: Óðinn Elísson lögmaður hjá Fulltingi

Fleiri greinar